A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Kvennafrídagurinn 24.10.25

Þorgeir Pálsson | 23. október 2025

Kæru íbúar Strandabyggðar,

 

Í tilefni kvennafrídagsins 24.10, verður skrifstofa Strandabyggðar lokuð þann daginn.  Ef um brýn erindi er að ræða, má beina þeim til sveitarstjóra í síma 899-0020 á vinnutíma.  Í leik- og grunnskóla er vetrarfrí þann 24.10 þannig að þar er lokað og í íþróttamiðstöðinni standa karlmenn vaktina.

 

Við hvetjum og styðjum konur og kvár til þátttölku á kvennafrídaginn!

Kveðja
þorgeir Pálsson
oddviti

HMS hefur birt drög að áætluðum eignamörkum jarða á Vestfjörðum

Heiðrún Harðardóttir | 22. október 2025
  • HMS hefur áætlað eignamörk um 750 jarða á Vestfjörðum
  • Eigendur fá send bréf þess efnis í dag í pósthólfið sitt á island.is
  • Aðilar hafa 6 vikur til að bregðast við

HMS er vel á veg komið við að kortleggja jarðir á Vestfjörðum og hefur áætlað eignarmörk um 750 jarða í landshlutanum. Hægt er að skoða eignamörkin í landeignaskrá HMS, en þar er einnig að finna áætluð eignamörk fyrir 1.720 jarðir á Norðurlandi.

Áætlun eignamarka á Vestfjörðum er liður í verkefni HMS um að áætla landamerki jarða um allt land, þar sem hnitsett afmörkun liggur ekki fyrir. Hægt er að lesa meira um verkefnið hér, en markmið þess er að bæta landeignaskrá þannig að hún geti þjónað sem heildstætt upplýsingakerfi um eignarhald lands á Íslandi.

Frá því að HMS tók við málaflokki fasteignaskrár hefur stofnunin unnið markvisst að uppbyggingu landeignaskrár. Í upphafi árs 2023 var um 29% flatarmáls Íslands afmarkað í landeignaskrá. Hlutfalið jókst í 39% árið 2024 og nú í október 2025 er það komið upp í 62% með áætlun eignamarka á stórum hluta Norðurlands og nú á Vestfjörðum.

Sex vik­ur til að bregð­ast við áætl­uð­um eigna­mörk­um

HMS sendi í dag eigendum jarðanna bréf á island.is, þess efnis að drög að áætluðum eignamörkum væru komin í birtingu. Aðilar hafa sex vikur til að bregðast við og senda HMS athugasemdir um áætlaða legu einstakra eignamarka.

Athugasemdir er hægt að senda á rafrænan hátt gegnum þar til gert form á island.is. Þar að auki geta landeigendur hitt starfsmenn í eigin persónu ef bókaður er fundur með því að senda okkur póst á netfangið jardir@hms.is eða í símanúmer stofnunarinnar 440-6400.  

Norð­aust­ur- og aust­ur­land eru næst til yf­ir­ferð­ar

Næstu svæði sem verða tekin til yfirferðar eru Þingeyjasýslur og Múlasýslur. Gert er ráð fyrir að drög að áætlun eignamarka á því svæði verði kynnt landeigendum seinni hluta árs 2026. Tímaáætlun annarra svæða er lýst í tímaáætlun verkefnis.

Frétt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar má sjá hér: HMS hefur birt drög að áætluðum eignamörkum jarða á Vestfjörðum | Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Strandabyggð auglýsir eftir verktaka til að sjá um snjómokstur og hálkuvarnir í sveitarfélaginu.

Heiðrún Harðardóttir | 20. október 2025

Strandabyggð auglýsir eftir verktaka til að sjá um snjómokstur og hálkuvarnir í sveitarfélaginu. 
Um er að ræða snjómokstur innan Hólmavíkur. Gerð er krafa um að verktaki hafi yfir að ráða tækjabúnaði sem ræður við mismunandi magn af snjó. 
 

  

Heildar kostnaðarrammi samnings er kr. 1.000.000.- á mánuði án vsk og er miðað við 6 mánaða tímabil, eða nóvember til og með apríl.  Skal verktaki skila inn tilboði sem sýnir þann tímafjölda á mánuði sem verktaki áætlar að sé innan þessa kostnaðarramma. Ónotaður tímafjöldi færist á milli mánaða. Eins þarf verktaki að tilgreina kostnað fyrir útselda vinnu stjórnanda og þeirra vinnuvéla sem nýttar verða, þegar umfang snjómoksturs er meira en sem nemur þessum fasta kostnaðarramma. Er þá átt við bæði tímagjald manna og véla. 

  

Framkvæmd og forgangsröðun snjómoksturs skal vera samkvæmt viðmiðunarreglum um snjómokstur í Strandabyggð (http://www.strandabyggd.is/stjornsysla/tilkynningar/skra/2495/) sem starfsmenn áhaldahúss veita upplýsingar um. Tengiliður verktaka eru starfsmenn Áhaldahúss. Um er að ræða snjómokstur fyrir tímabilið 1. nóvember 2025 –  1.maí 2028.  Gerður verður verktakasamningur við viðkomandi þar um. 

  

Tilboðum skal skila inn til skrifstofu Strandabyggðar merktar „Snjómokstur 25-28“ fyrir kl 16, miðvikudaginn 29. október n.k. eða á netfangið strandabyggd@strandabyggd.is. 

  

Allar nánari upplýsingar veitir Sigurður Marinó Þorvaldsson, forstöðumaður áhaldahúss, í síma 894-4806, eða á netfangið siggimarri@strandabyggd.is. Strandabyggð áskilur sér rétt til að taka því tilboði sem metið er hagkvæmast, eða hafna öllum. 

Syndum - landsátak í sundi hefst 1. nóvember

Heiðrún Harðardóttir | 17. október 2025

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. - 30. nóvember 2025. 

Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess. Á síðasta ári syntu þátttakendur samtals 31.271km, eða um 24 hringi í kringum landið. Það væri gaman að sjá sem flestar sundlaugar taka þátt. 
Í fyrra voru skólar og sundfélög einnig sérstaklega hvött til þátttöku og svo verður einnig í ár.

Syndum - Landsátak í sundi, er framhald af Íþróttaviku Evrópu, sem varð 10 ára í ár, og er verkefni styrkt af European Commission. Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. 

Það er margt sem við getum gert til að bæta og viðhalda líkama og sál og allt telur. Íslendingar hafa verið duglegir að stunda sund enda búum við vel að góðum sundlaugum um allt land. Sund er fyrir alla, óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi og er tilvalin þjálfunaraðferð sem styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans en er einnig frábær og skemmtileg tómstundaiðja sem öll fjölskyldan getur stundað saman. 

Syndum saman í kringum Ísland. Allir skráðir sundmetrar safnast saman og verða sýnilegir á forsíðu www.syndum.is

Til þess að taka þátt þarf að skrá sig inn á www.syndum.is og fara í Mínar skráningar. Einfalt er að velja sér notendanafn og lykilorð og skrá synta metra. Þeir sem eiga notendanafn úr Lífshlaupinu eða Hjólað í vinnuna geta notað það til að skrá sig inn. 

Skráningarblaðið er hugsað fyrir þá sem geta ekki notað tölvu til skráningar á metrum, en auðveldast er að starfsfólk sundlauga skrái samtöluna inn í kerfið t.d vikulega. 

Fyrir frekari upplýsingar má hafa samband í gegnum syndum@isi.is

Aðalskipulagið undirritað!

Þorgeir Pálsson | 15. október 2025
Á myndinni eru Margrét Ólafsdóttir frá Landmótun, Hlynur Torfi Torfason skipulagsfulltrúi og Þorgeir Pálsson, oddviti Strandabyggðar
Á myndinni eru Margrét Ólafsdóttir frá Landmótun, Hlynur Torfi Torfason skipulagsfulltrúi og Þorgeir Pálsson, oddviti Strandabyggðar
« 1 af 3 »
Kæru íbúar Strandabyggðar og allir hlutaðeigandi,

Í dag skrifaði ég, fyrir hönd Strandabyggðar, undir endurskoðað Aðalskipulag Strandabyggðar 2021-2033.  Þetta er stór stund fyrir sveitarfélagið og okkur íbúa og alla sem sjá hér tækifæri og góð skilyrði til búsetu og uppbyggingar atvinnulífs.  Mikil vinna er að baki og hafa margir komið að þessu verkefni, enda hófst vinna við endurskoðun aðalskipulagsins í tíð fyrrverandi sveitarstjórnar.  

Það er vert að þakka öllum þeim kjörnu fulltrúum Strandabyggðar, starfsmönnum sveitarfélagsins, skipulagsfulltrúa, byggingarfulltrúa, íbúum og öllum öðrum sem komið hafa að þessari vinnu, sem var undir stjórn fyrirtækisins Landmótunar.  Öllum þessum er þakkað heilshugar fyrir þeirra framlag, áhuga og vinnu við verkefnið.

Við munum segja nánar frá þessu verkefni og næstu skrefum síðar, en nú er rétt að fagna, því þetta er stór stund fyrir Strandabyggð og okkur öll!

Áfram Strandabyggð!

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Oddviti
Síða 1 af 484
Eldri færslur

Facebook

Vefumsjón